2011-02-27

Úr fórum frúarinnar

Ég kvæntist til fjár, það má með sanni segja. Eiginkona mín er nefnilega ekki einungis rík af gáfum, hún á heilan fjársjóð hluta sem hún vill helst ekki hafa frammi við. Þeir eru grafnir lengst inn í eldhússkápunum og þegar ég fæ óðuna (sem gerist um það bil tvisvar á ári) og þvæ allt upp úr ródalóni, tek ég þá fram og dáist að þeim. Áðan fann ég til dæmis fallegan vasa frá keramikverskmiðjum Strehla í Þýskalandi. Hann er sirkabát 15 sm hár.




Þarna leyndust líka tveir danskir IRA-baukar sem eru svo fínir að maður tárfellir næstum við það að horfa á þá.


Í neðri bauknum eru þvottaklemmur, í þeim eftri drasl.

2011-02-21

Svíakonungar

Sænsku tinkonungarnir frá Kulturen eru komnir af eldhúsviftunni í Amagerhilluna sem flaug upp á vegg þar sem teakklukkan hafði hangið áður. Þeir fá félagsskap af nunnunum okkar tveim, Systur Playmobil og Systur Sesselju sem kom gefins frá Kanarí.

Læt fljóta með mynd af klukkunni atarna sem við keyptum í rykugum kjallara á fimm kall.

Frískir fiskar


Um daginn pantaði ég veggspjald frá Veggspjaldasafninu í Árósum. Það er eftir Aage Rasmussen (1913-1974) sem lærði við Teknisk skole í Kaupmannahöfn. Hann er kannski þekktastur fyrir auglýsingar sem hann teiknaði fyrir DSB í kringum 1940. Nú er veggspjaldið mitt komið í ramma og upp á vegg. Amagerhillan sem hékk þarna fær nýjan og betri stað þegar fram líða stundir.

2011-02-10

Jón forseti

Þessi koparplatti með vangamynd af Jóni Sigurðssyni var gefinn út sem minjagripur 1944. Hann hangir á silfurþræði á skrifstofunni sem ég hef til afnota. Silla gaf mér hann þegar ég tók doktorsprófið og mér þykir óendanlega gaman að ég skuli eiga hann.

Hann er níðþungur og spanskgrænan þekur hann að aftan.