2011-03-23

Önd

Þessa önd gaf góð vinkona mér fyrir mörgum, mörgum árum. Eiginkonu minni finnst hún ljót svo ég hef hana á skrifborðinu á skrifstofunni minni. Lykillinn sem maður notar til að trekkja öndina upp er týndur og tröllum gefinn. En það skiptir ekki aðalmáli, litirnir æpa nógu mikið á mann í annars svart-hvítu umhverfinu og það getur oft verið hressandi.

2011-03-17

Þvagblöðrur og eldhúsinnréttingar

Æ, það er allur vindur úr manni ... Þessi vetur er orðinn nokkrum vikum of langur og maður er orðinn ansi langeygður eftir vorvindunum. En það þýðir víst lítið að kvarta.

Ég held ég sé búinn að birta myndir af öllum postulínshundunum mínum og það er lítið um loppisa á þessum tíma árs. Ætli maður verði ekki að vera taktískur í sumar og safna á sig einhverjum munum sem maður getur lekið út á netið með reglulegu millibili.

Meðan við bíðum getum við dáðst að þurrkuðu þvagblöðrunum sem hanga í loftinu á safninu í Kirkjubø á Streymoy í Færeyjum. Þetta var víst notað í gamla daga til að geyma vatn í. Ég tók ekki eftir eftirlitsmyndavélinni fyrr en ég hlóð myndinni inn á tölvuna. Mér finnst hún skemmtileg af því að hún minnir mann á andstæðurnar í þessu guðsvolaða neyslusamfélagi sem við búum í.


Svo fylgir líka mynd úr eldhúsi í pínulitlum sveitaskóla einhvers staðar í Kaafjord (lengst uppi í Troms í Norður-Noregi). Litirnir eru einstaklega ósamstæðir, en ljósbláu hurðirnar minna mig einhvernveginn á eldhúsið heima í Klöppum (ég man nú ekki eftir því að þær hafi nokkurn tíma verið ljósbláar, en systir mín sem skrifar stundum stuttorðar athugasemdir hér án þess að sanna sérstaklega mikið á sér deili, gæti örugglega frískað upp á minnið, þær voru alla vega ljósar alla tíð, þótt veggirnir hafi verið ansi skrautlegir).