2011-06-27

Vasi


LOKSINS, segi ég nú bara, fékk ég afmælisgjöf frá systur minni!

Ég var við það að fara að taka hana af sakramentinu, en henni til happs gaf hún mér þennan forláta vasa frá Glit þegar ég heimsótti hana í síðustu viku. Hann er bláyrjóttur og eins og bústin kona í laginu. Mjúkur og fallegur. Núna fylla hvítu rósirnar úr garðinum mínum hann og ilmurinn ... bara að maður gæti fyllt internetið með honum!

Vegglampi

Systir mín seldi mér lampann sinn. Hún vildi fá þúsund krónur fyrir hann en ég sagðist ekki myndu borga meira en fimm hundruð. Hún féllst á það með semingi þó. Glerkúpullinn er hvítur og mattur, með óreglulegum röndum eftir honum endilöngum.

Nú hangir hann á veggnum í stiganum. Og lýsir upp fjölskyldumyndir.

Hross

Fyrir helgi fórum við Ragna í kaffi til heiðursfólksins Elísabetar og Hjálmars. Það er varla til yndislegra og glaðara fólk og þar fengum við besta heimabakaða brauð sem ég hef borðað og dýrindis kaffi. Ekki nóg með það, við vorum líka leyst út með gjöf, þessari ótrúlega fínu hestamynd!

Í minningunni hangir svona mynd uppi á vegg í borðstofunni hjá ömmu og afa, en mamma segir að mig misminni. En það skiptir nú minna máli. Myndin er falleg og litirnir eru uppáhalds.

2011-06-26

Arfurinn

Mamma tók frá nokkra hluti sem amma og afi höfðu átt sem ég fékk að taka með mér heim.

Meðal annars voru þarna tveir litir blómavasar, varla meira en sex-sjö sentimetrar á hæð. Þetta er tékkóslóvakískt gler, skorið og með léttum bláum bjarma (ég elska blátt gler!)


Svo eru gersemarnar, öskubakkinn og sígarettukrukkan, eftir Guðmund frá Miðdal. Þetta stóð alltaf á borði í stofunni hjá ömmu og afa. Laufin hafa brotnað af öskubakkanum og svo verið límd aftur á.



Svo er þarna (vestur?)-þýskur vasi, brúnn og gulur með bláum doppum á:

Ég þekki ekki lógóið á miðanum og nenni ekki að gúgla því fyrr en allar vonir eru úti um að keramiksérfræðingarnir, Þórdís og Elísabet, viti hvaðan þetta kemur.