2010-12-15

Clausholm (Holmegaard)


Ég hef alltaf verið svag fyrir slípuðu og sandblásnu gleri. Þegar ég bjó í Árósum sankaði ég að mér snapsa- og portvínsglösum úr seríunni Clausholm sem var framleidd hjá Holmegaard á árunum 1958-1982. Þessi glös voru sjaldséð í fornsölunum í Árósum en á netinu má finna dobíu af þeim. Þar kosta þau undantekningarlaust hvítuna úr augunum.

Glösin eru mjög brothætt (sumar hafa fundið upp á því að setja þau í uppþvottavélina og þau hafa ekki lifað þá salíbunu af).

2010-12-04

Clemens Antik

Við fórum með ungviðið í klippingu í morgun. Á meðan brá ég mér inn í Clemens Antik sem er verslun á tveim hæðum, troðfull af tekki, gleri og allskonar fíneríi. Ég keypti tekkborð þar á 100 krónur, nú er það nýolíuborið og fallegt og stendur undir diskójólatrénu okkar:

Þarna voru líka bústnar kerlingar:


Betulegir vasar:


Dásamlegar Amagerhyllur, sem mig langaði í en ég hélt aftur af mér:


Og þessir fínu mósaíklampar, sem kostuðu bara 50 krónur stykkið:

2010-11-23

Uppboð

Þessa gipsstyttu keyptum við á uppboði í hembygdsgården (samkomuhúsinu) í Ede rétt fyrir utan Hammerdal í Jämtlandi fyrir tveim árum.

Konan varð óð og uppvæg þegar hún sá styttuna hana langaði svo í hana. Amma hennar hafði keypt samskonar styttu (með hvítt blóm í hárinu) af farandsala einhverntíma fyrir langa löngu en mágur minn hafði svo fengið hana. Við ákváðum að bjóða í styttuna og að það skyldi vera ég sem byði í hana. Ég var með hundrað krónur á mér svo hún mátti ekki verða dýr.

Svo byrjaði ég að bjóða í styttuna, tíu, tuttugu, þrjátíu, fjörutíu krónur og þannig koll af kolli. Þegar ég var kominn upp í sjötíu áttaði ég mig á því að við vorum bara tvö sem buðum í styttuna. Ég og konan.

2010-11-07

Nýr heimilismeðlimur


Nýjasti heimilismeðlimurinn var sóttur til Málmeyjar í morgun. Hann kostaði kúk og kanil og það þurfti að skrúfa undan honum lappirnar svo hann kæmist fyrir í bílnum.

Þegar var búið að bera á hann teakolíu og pólera hann aðeins varð hann næstum því eins og nýr. Nittsjö-plattinn fær að veita honum selskap.

Nú hefur geymslupláss heimilisins aukist um helming, en það er alveg hreint með ólíkindum hvað nútíma arkítektar eru sparsamir á skápaplássið.

2010-11-05

Myrorna


Við skruppum til Málmeyjar í dag og skoðuðum teak-skenk á markaði fyrir notaðar mubblur. Myrorna (≈ Góði hirðirinn x 31) eru rétt hjá svo við ákváðum að fara þangað líka. Þar veit fólkið aðeins meira um verðmæti hluta en fólkið í Góða hirðinum, svo öllu dýrmætu er komið fyrir í læstum skápum og verðið er eftir því, hátt. Maður finnur enga Erik Kold bauka á skít og kanil.

Inn á milli finnur maður samt gersemar eins og litlu kisuna á myndinni. Hún kostaði ekki nema 5 krónur. Svo keypti ég líka heklunálar sem eru svo fínar að það er hægt að hekla tvinna með þeim.

(Emmaus, sem er í sömu götu, bíður betri tíma, við nenntum ekki).

2010-10-12

Augnakonfekt


Þegar ég var sjö ára (haustið 1982) opnaði nýi skólinn á Kópaskeri. Hann var svo lagður niður í vor og börnunum er smalað saman eins og rollum í rétt í innsveitaskóla í miðjum Öxarfirði. Það kenndi margra grasa í nýja skólanum. Húsgögnin, gryfjan, flennistórar rennihurðir, klósett sem maður gat læst sig inni á. Reykingalyktin sem fyllti fljótt skrifstofuna hans Péturs. En stærst af öllu var tölvuherbergið sem var fyllt með nýjustu tölvum sem við fengum að forrita og leika okkur með. Svo man ég einna best eftir plastdúkku sem var hægt að taka öll innyfli og líffæri úr og skoða. Sum þeirra, eins og til dæmis lifrina og augað, var hægt að taka í sundur og sjá hvernig litu út að innan. Dúkkan var kvenkyns og það var náttúrlega mjög mikilvægt að læra hvernig hún væri útlits að neðan.

Fyrir nokkrum árum var ég á ferð í Älvdalen (í Dölunum í Svíþjóð) og kom í lítið skólasafn. Þar sá ég þetta auga. Það er alltaf eitthvað ógeðslegt við augu. Þau eiga helst að sitja föst í augnatóftunum. En það fékk mig alla vega til að minnast dúkkunnar sem ég lék mér með í skólanum heima. Sú minning yljaði mér.

2010-10-09

Aftur í barnæsku


Það eru ekki allir jafnheppnir og ég að fá að alast upp í húsi með sandblásnum panelveggjum prýddum með heimsins sorglegustu mynd af Drengnum með tárið. Þegar ég var lítill hélt ég alltaf að þessi mynd væri af pabba mínum og að hann hlyti að vera svona sorgmæddur af því að hann ólst upp við svo bág kjör.

2010-09-30

Danslagabandaveggmyndir

Svíar eru danslagabandaóðir. Á árum áður var heill iðnaður í því að framleiða veggmyndir, plötuumslög og allskonar varning með myndum af danslagaböndum, þar sem meðlimir hljómsveitarinnar klæddust eins fötum. Oftar en ekki voru þetta myndir af hressu fólki sem trallaði og söng einhvers staðar úti í náttúrunni í skærlitum samfestingum með vindblásið hár. Í samkomuhúsinu í Evertsberg hanga veggspjöld meðfram öllum veggjum, þar á meðal þetta af Evert Sandin sem gaf til dæmis út plötuna Helkul i Dalom:



Evert Sandin syngur Gärdebylåten:

2010-09-24

Praktík


Svíar hafa alltaf lagt mikla áherslu á analýtískar gáfur. Áður en maður notar hluti verður maður að skilja hvernig þeir virka. Í Älvdalen var börnum til dæmis kennt á tvítaktsvélar með þessari græju.

Hárvatn

Þetta veggspjald hékk uppi á vegg í verkstæði tendaföður míns en áður en ég náði að betla það út úr honum gaf hann hárgreiðslumeistaranum í þorpinu það svo hann gæti stillt því út í gluggann á hárgreiðslustofunni sinni ... ég hefði annars hengt það upp í stofunni heima. Jafnfalleg auglýsingaskilti eru vandfundin nú á tímum.

Mér hefur því miður ekki tekist að hafa upp á sögu Hylins. Þessi auglýsing um Hylins olíusjampó, sem var mest selda sjampó í Svíþjóð, birtist 1963.

2010-09-10

Vasar

Maður vill ekki vera eftirbátur annarra og merkilegri gúrúa. Þess vegna safnaði ég nokkrum af vösum heimilisins á skenkinn og tók mynd af þeim. Þennan græna fengum við í sumar hjá tengdó. Hann er merktur Eneryda Glasbruk. Brúnguli vasinn er Bambu eftir Bo Borgström á Åseda Glasbruk. Hitt veit ég ekki hvað er, enda hef ég lítið vit á svona verðmætum.


2010-08-26

Bollar

Niðri í bæ eru tveir nytjamarkaðir, Erikshjälpen og Fyndkällaren. Fúkkalyktin og draslið í Fyndkällaren eru svo yfirgnæfandi að maður fer þaðan með meiri hausverk en maður kom með. Hjá Erikshjälpen eru kerlingarnar svo hægar og heyrnarlausar að maður stendur í hálftíma í röð (einn) áður en maður fær afgreiðslu. Þær vita samt hvað þær geta fengið fyrir hlutina. Rörstrand er til dæmis dýrt. Samt tókst mér að fá þrjá svona bolla fyrir 18 krónur í dag. Ég ætla að drekka kaffi úr þeim þegar Marimekkobollinn minn er í uppþvottavélinni.


Fyrir þá sem eru illa haldnir af staðlablæti (eins og t.d. ég og u.þ.b. níu milljónir Svía), þá stendur VDN fyrir varudeklarationsnämnden, P = postulín og 555 = engin hætta á því að komi sprungur í glerunginn, þolir alla matarrétti, þolir 75 gráður í uppþvottavél. Það var byrjað að merkja postulín með þessu á sjöunda áratugnum.

2010-08-22

Turn


Öll dönsk ráðhús hafa turn. Nema turninum á ráðhúsinu í Árósum var víst klínt á eftirá. Arne Jakobsen var nefnilega illa við turna. Sagan hermir að hann hafi haft turninn sem ljótastan, bara til að hefna sín. Mér finnst hann fallegur svona upplýstur í myrkrinu.

Rússíbani

Grind þessi heldur uppi rússíbana í Tusenfryd fyrir utan Osló. Þetta er ein sú flóknasta smíð sem ég hef séð, en hún er ekki mjög traustvekjandi fyrir vikið. Ég fór aldrei í rússíbanann.

Múr

Þessi múr er hluti af virki í Varberg. Það er eitthvað við hann sem heillar mig, en ég get ekki útskýrt það. Kannski rótið og allar ólíku línurnar, eða hversu ófullkominn hann er með öllum þessum ólíku múrsteinum og tréverki.

Stillasar

Ég hef mjög lúmskan áhuga á því sem ég er hræddur við, þó sérstaklega á stillösum og köngulóm. Þessi mynd er tekin í Gamle Byen í Osló.

2010-07-28

Skýjabakki


Ráðhúsið í Osló séð frá Aker brygge. Sama dag tók ég aðra mynd af klukkunni þarna. Af óskiljanlegum ástæðum komst hún í ferðahandbók á netinu.

i


Það voru ekki margir bæklingar í upplýsingakassanum í Jelling.

Strætóskýli


Þetta glaðlega strætóskýli sá ég á Jótlandi (á leiðinni til Jelling). Maður færi áreiðanlega ekki í vont skap af því að bíða eftir strætó þarna.

Gyllt þakskegg

Eitt af uppáhaldsmótífum mínum eru húsþök. Þessi turn stendur við Den gamle by í Árósum.

Trappa

Tröppur hafa alltaf heillað mig. Alla vega síðan ég datt niður tröppurnar í MH 1991 og fótbraut mig. Þessar eru á t-banestöðinni Ryen í Osló og mér finnst blái liturinn efst fallegur.

Amba$$ador blvd

Ég man eftir því að hafa einhvern tíma heyrt söguna af tilurð Ambassador Blvd. en ég er búinn að gleyma henni.

Smurt


Það er mikilvægt að nota rétt vax á skíðin og þá er svei mér gott að hafa svona hitamæli!

Nauðsynjar

Þegar háfjallahótelið Fefor á Norður-Fróni í Upplandi var byggt þótti mönnum greinilega sjálfsagt að reykja meðan þeir sátu á klósettinu.

Alexanderplats


Þessi mynd er tekin að morgni til á einni fjölförnustu U-bahnstöð Berlínar, Alexanderplatz. Ég stóð örugglega í hálftíma þarna til að geta tekið myndina. Mér leiðist fólk á myndum.

Hálfkúlur í Berlín


Á Oranienburgerstraße standa þessar risastóru hálfkúlur og bíða eftir því að fólk hendi glerflöskunum sínum í þær. Þjóðverjar þurfa náttúrlega alltaf að ganga einu skrefi lengra í ruslflokkun en aðrir, hér dugir ekki að flokka litað gler frá glæru. Brúnu gleri er kastað sér og grænu sér.

Dári pissar á sig í Stuttgart

Þessa miða sá ég á ljósastaur og niðurfallsröri í Haußmannstraße í Stuttgart í febrúar 2005. Mér finnst brókin með pissublettinum alveg dásamleg.