2011-06-27

Vasi


LOKSINS, segi ég nú bara, fékk ég afmælisgjöf frá systur minni!

Ég var við það að fara að taka hana af sakramentinu, en henni til happs gaf hún mér þennan forláta vasa frá Glit þegar ég heimsótti hana í síðustu viku. Hann er bláyrjóttur og eins og bústin kona í laginu. Mjúkur og fallegur. Núna fylla hvítu rósirnar úr garðinum mínum hann og ilmurinn ... bara að maður gæti fyllt internetið með honum!

Vegglampi

Systir mín seldi mér lampann sinn. Hún vildi fá þúsund krónur fyrir hann en ég sagðist ekki myndu borga meira en fimm hundruð. Hún féllst á það með semingi þó. Glerkúpullinn er hvítur og mattur, með óreglulegum röndum eftir honum endilöngum.

Nú hangir hann á veggnum í stiganum. Og lýsir upp fjölskyldumyndir.

Hross

Fyrir helgi fórum við Ragna í kaffi til heiðursfólksins Elísabetar og Hjálmars. Það er varla til yndislegra og glaðara fólk og þar fengum við besta heimabakaða brauð sem ég hef borðað og dýrindis kaffi. Ekki nóg með það, við vorum líka leyst út með gjöf, þessari ótrúlega fínu hestamynd!

Í minningunni hangir svona mynd uppi á vegg í borðstofunni hjá ömmu og afa, en mamma segir að mig misminni. En það skiptir nú minna máli. Myndin er falleg og litirnir eru uppáhalds.

2011-06-26

Arfurinn

Mamma tók frá nokkra hluti sem amma og afi höfðu átt sem ég fékk að taka með mér heim.

Meðal annars voru þarna tveir litir blómavasar, varla meira en sex-sjö sentimetrar á hæð. Þetta er tékkóslóvakískt gler, skorið og með léttum bláum bjarma (ég elska blátt gler!)


Svo eru gersemarnar, öskubakkinn og sígarettukrukkan, eftir Guðmund frá Miðdal. Þetta stóð alltaf á borði í stofunni hjá ömmu og afa. Laufin hafa brotnað af öskubakkanum og svo verið límd aftur á.



Svo er þarna (vestur?)-þýskur vasi, brúnn og gulur með bláum doppum á:

Ég þekki ekki lógóið á miðanum og nenni ekki að gúgla því fyrr en allar vonir eru úti um að keramiksérfræðingarnir, Þórdís og Elísabet, viti hvaðan þetta kemur.

2011-03-23

Önd

Þessa önd gaf góð vinkona mér fyrir mörgum, mörgum árum. Eiginkonu minni finnst hún ljót svo ég hef hana á skrifborðinu á skrifstofunni minni. Lykillinn sem maður notar til að trekkja öndina upp er týndur og tröllum gefinn. En það skiptir ekki aðalmáli, litirnir æpa nógu mikið á mann í annars svart-hvítu umhverfinu og það getur oft verið hressandi.

2011-03-17

Þvagblöðrur og eldhúsinnréttingar

Æ, það er allur vindur úr manni ... Þessi vetur er orðinn nokkrum vikum of langur og maður er orðinn ansi langeygður eftir vorvindunum. En það þýðir víst lítið að kvarta.

Ég held ég sé búinn að birta myndir af öllum postulínshundunum mínum og það er lítið um loppisa á þessum tíma árs. Ætli maður verði ekki að vera taktískur í sumar og safna á sig einhverjum munum sem maður getur lekið út á netið með reglulegu millibili.

Meðan við bíðum getum við dáðst að þurrkuðu þvagblöðrunum sem hanga í loftinu á safninu í Kirkjubø á Streymoy í Færeyjum. Þetta var víst notað í gamla daga til að geyma vatn í. Ég tók ekki eftir eftirlitsmyndavélinni fyrr en ég hlóð myndinni inn á tölvuna. Mér finnst hún skemmtileg af því að hún minnir mann á andstæðurnar í þessu guðsvolaða neyslusamfélagi sem við búum í.


Svo fylgir líka mynd úr eldhúsi í pínulitlum sveitaskóla einhvers staðar í Kaafjord (lengst uppi í Troms í Norður-Noregi). Litirnir eru einstaklega ósamstæðir, en ljósbláu hurðirnar minna mig einhvernveginn á eldhúsið heima í Klöppum (ég man nú ekki eftir því að þær hafi nokkurn tíma verið ljósbláar, en systir mín sem skrifar stundum stuttorðar athugasemdir hér án þess að sanna sérstaklega mikið á sér deili, gæti örugglega frískað upp á minnið, þær voru alla vega ljósar alla tíð, þótt veggirnir hafi verið ansi skrautlegir).

2011-02-27

Úr fórum frúarinnar

Ég kvæntist til fjár, það má með sanni segja. Eiginkona mín er nefnilega ekki einungis rík af gáfum, hún á heilan fjársjóð hluta sem hún vill helst ekki hafa frammi við. Þeir eru grafnir lengst inn í eldhússkápunum og þegar ég fæ óðuna (sem gerist um það bil tvisvar á ári) og þvæ allt upp úr ródalóni, tek ég þá fram og dáist að þeim. Áðan fann ég til dæmis fallegan vasa frá keramikverskmiðjum Strehla í Þýskalandi. Hann er sirkabát 15 sm hár.




Þarna leyndust líka tveir danskir IRA-baukar sem eru svo fínir að maður tárfellir næstum við það að horfa á þá.


Í neðri bauknum eru þvottaklemmur, í þeim eftri drasl.

2011-02-21

Svíakonungar

Sænsku tinkonungarnir frá Kulturen eru komnir af eldhúsviftunni í Amagerhilluna sem flaug upp á vegg þar sem teakklukkan hafði hangið áður. Þeir fá félagsskap af nunnunum okkar tveim, Systur Playmobil og Systur Sesselju sem kom gefins frá Kanarí.

Læt fljóta með mynd af klukkunni atarna sem við keyptum í rykugum kjallara á fimm kall.

Frískir fiskar


Um daginn pantaði ég veggspjald frá Veggspjaldasafninu í Árósum. Það er eftir Aage Rasmussen (1913-1974) sem lærði við Teknisk skole í Kaupmannahöfn. Hann er kannski þekktastur fyrir auglýsingar sem hann teiknaði fyrir DSB í kringum 1940. Nú er veggspjaldið mitt komið í ramma og upp á vegg. Amagerhillan sem hékk þarna fær nýjan og betri stað þegar fram líða stundir.

2011-02-10

Jón forseti

Þessi koparplatti með vangamynd af Jóni Sigurðssyni var gefinn út sem minjagripur 1944. Hann hangir á silfurþræði á skrifstofunni sem ég hef til afnota. Silla gaf mér hann þegar ég tók doktorsprófið og mér þykir óendanlega gaman að ég skuli eiga hann.

Hann er níðþungur og spanskgrænan þekur hann að aftan.

2011-01-31

Sveskja

Stig Lindberg er vafalaust einn af þekktustu hönnuðum Svía. Hann vann lengi í postulínsverksmiðju Gustavsberg, hannaði sjónvarpstæki, textíl og myndskreytti bækur, m.a. bækur Lennarts Hellsings. Ef konan fengi að ráða væru allir veggir hússins þaktir Lystigarðinum. En hún fær ekki alltaf að ráða.

Fyrir utan nokkrar undirskálar með mynstri eftir Lindberg eigum við mjólkurkönnu úr seríunni Prunus sem var framleidd á árunum 1962 – 1974. Við notum hana aldrei af því að það sullast meira niður með köntunum en í glasið þegar maður hellir úr henni. Hún er ágæt fyrir túlípana.

2011-01-09

Mykolo

Hér á heimilinu kaupum við ekki sænskt postulín, við fáum það gefins. Smáhlutirnir hverfa hver á fætur öðrum úr skafferíi tengdamóður minnar og ganga í endurnýjun lífdaganna hjá okkur.

Skálin, sem er 28 sm löng og 11 sm breið þar sem hún er breiðust, er merkt Mykolo og kemur úr postulínsverksmiðju Uppsala-Ekeby.



Amagerhillan

Ég stóðst náttúrlega ekki mátið og keypti amagerhillurnar sem ég sá í antíkbúðinni á Clemenstorgi. Það er annar háttur á hér en í íslenskum skransölum, þar sem allt er selt á hæsta mögulega verði. Ég fékk hillurnar á spottprís, næstum því tvær fyrir eina. Í sömu búð keypti ég svo lítið hliðarborð á 100 krónur (það verður sett inn mynd af því seinna).

Núna er hillan, sú sem var ekki gefin í jólagjöf, komin upp á vegg og í hana refurinn góði og steinarnir sem mamma heklaði utan um.





ES: Óminnishegrinn er með mér nú sem fyrri daginn. Ég var auðvitað búinn að birta mynd af hliðarborðinu, en þá var það reyndar óolíuborið og ekki í fókus. Það er miklu fallegra í stofunni minni en í búðarkjallaranum sem ég fann það í.

2011-01-07

Baukar

Það sló mig að ég var ekki búinn að setja inn myndir af Erik Kold baukunum sem mér áskotnuðust í haust sem leið. Amma mín keypti þá áreiðanlega í útibúi Kaupfélags Norður-Þingeyinga í Ásbyrgi einhvern tíma á níunda áratugnum. Hún fór í 100-ára afmælið hans afa á himnum í vor og mamma kom með þá til mín og líka tvo dýrindis kökubauka sem amma hafði átt. Blómabaukurinn er uppáhalds!


Elgir

Tengdafaðir minn hefur stundað elgsveiðar alla sína hunds og kattar tíð. Frystikistan er full af ólseigu elgskjöti sem við tyggjum í öll mál þegar við erum hjá þeim í heimsókn. Elgurinn er mikilvægur hluti af lífinu, enginn fer út fyrir hússins dyr án þess að allir hrópi á eftir „Passaðu þig á elgnum!“

Þessir ægifögru Jie-plattar hanga upp á vegg hjá tengdaforeldrum mínum. Ég ætla einhvern tíma að læsa krumlunum í þá ...