2010-11-23

Uppboð

Þessa gipsstyttu keyptum við á uppboði í hembygdsgården (samkomuhúsinu) í Ede rétt fyrir utan Hammerdal í Jämtlandi fyrir tveim árum.

Konan varð óð og uppvæg þegar hún sá styttuna hana langaði svo í hana. Amma hennar hafði keypt samskonar styttu (með hvítt blóm í hárinu) af farandsala einhverntíma fyrir langa löngu en mágur minn hafði svo fengið hana. Við ákváðum að bjóða í styttuna og að það skyldi vera ég sem byði í hana. Ég var með hundrað krónur á mér svo hún mátti ekki verða dýr.

Svo byrjaði ég að bjóða í styttuna, tíu, tuttugu, þrjátíu, fjörutíu krónur og þannig koll af kolli. Þegar ég var kominn upp í sjötíu áttaði ég mig á því að við vorum bara tvö sem buðum í styttuna. Ég og konan.

2010-11-07

Nýr heimilismeðlimur


Nýjasti heimilismeðlimurinn var sóttur til Málmeyjar í morgun. Hann kostaði kúk og kanil og það þurfti að skrúfa undan honum lappirnar svo hann kæmist fyrir í bílnum.

Þegar var búið að bera á hann teakolíu og pólera hann aðeins varð hann næstum því eins og nýr. Nittsjö-plattinn fær að veita honum selskap.

Nú hefur geymslupláss heimilisins aukist um helming, en það er alveg hreint með ólíkindum hvað nútíma arkítektar eru sparsamir á skápaplássið.

2010-11-05

Myrorna


Við skruppum til Málmeyjar í dag og skoðuðum teak-skenk á markaði fyrir notaðar mubblur. Myrorna (≈ Góði hirðirinn x 31) eru rétt hjá svo við ákváðum að fara þangað líka. Þar veit fólkið aðeins meira um verðmæti hluta en fólkið í Góða hirðinum, svo öllu dýrmætu er komið fyrir í læstum skápum og verðið er eftir því, hátt. Maður finnur enga Erik Kold bauka á skít og kanil.

Inn á milli finnur maður samt gersemar eins og litlu kisuna á myndinni. Hún kostaði ekki nema 5 krónur. Svo keypti ég líka heklunálar sem eru svo fínar að það er hægt að hekla tvinna með þeim.

(Emmaus, sem er í sömu götu, bíður betri tíma, við nenntum ekki).

2010-10-12

Augnakonfekt


Þegar ég var sjö ára (haustið 1982) opnaði nýi skólinn á Kópaskeri. Hann var svo lagður niður í vor og börnunum er smalað saman eins og rollum í rétt í innsveitaskóla í miðjum Öxarfirði. Það kenndi margra grasa í nýja skólanum. Húsgögnin, gryfjan, flennistórar rennihurðir, klósett sem maður gat læst sig inni á. Reykingalyktin sem fyllti fljótt skrifstofuna hans Péturs. En stærst af öllu var tölvuherbergið sem var fyllt með nýjustu tölvum sem við fengum að forrita og leika okkur með. Svo man ég einna best eftir plastdúkku sem var hægt að taka öll innyfli og líffæri úr og skoða. Sum þeirra, eins og til dæmis lifrina og augað, var hægt að taka í sundur og sjá hvernig litu út að innan. Dúkkan var kvenkyns og það var náttúrlega mjög mikilvægt að læra hvernig hún væri útlits að neðan.

Fyrir nokkrum árum var ég á ferð í Älvdalen (í Dölunum í Svíþjóð) og kom í lítið skólasafn. Þar sá ég þetta auga. Það er alltaf eitthvað ógeðslegt við augu. Þau eiga helst að sitja föst í augnatóftunum. En það fékk mig alla vega til að minnast dúkkunnar sem ég lék mér með í skólanum heima. Sú minning yljaði mér.

2010-10-09

Aftur í barnæsku


Það eru ekki allir jafnheppnir og ég að fá að alast upp í húsi með sandblásnum panelveggjum prýddum með heimsins sorglegustu mynd af Drengnum með tárið. Þegar ég var lítill hélt ég alltaf að þessi mynd væri af pabba mínum og að hann hlyti að vera svona sorgmæddur af því að hann ólst upp við svo bág kjör.

2010-09-30

Danslagabandaveggmyndir

Svíar eru danslagabandaóðir. Á árum áður var heill iðnaður í því að framleiða veggmyndir, plötuumslög og allskonar varning með myndum af danslagaböndum, þar sem meðlimir hljómsveitarinnar klæddust eins fötum. Oftar en ekki voru þetta myndir af hressu fólki sem trallaði og söng einhvers staðar úti í náttúrunni í skærlitum samfestingum með vindblásið hár. Í samkomuhúsinu í Evertsberg hanga veggspjöld meðfram öllum veggjum, þar á meðal þetta af Evert Sandin sem gaf til dæmis út plötuna Helkul i Dalom:



Evert Sandin syngur Gärdebylåten:

2010-09-24

Praktík


Svíar hafa alltaf lagt mikla áherslu á analýtískar gáfur. Áður en maður notar hluti verður maður að skilja hvernig þeir virka. Í Älvdalen var börnum til dæmis kennt á tvítaktsvélar með þessari græju.