2010-11-23

Uppboð

Þessa gipsstyttu keyptum við á uppboði í hembygdsgården (samkomuhúsinu) í Ede rétt fyrir utan Hammerdal í Jämtlandi fyrir tveim árum.

Konan varð óð og uppvæg þegar hún sá styttuna hana langaði svo í hana. Amma hennar hafði keypt samskonar styttu (með hvítt blóm í hárinu) af farandsala einhverntíma fyrir langa löngu en mágur minn hafði svo fengið hana. Við ákváðum að bjóða í styttuna og að það skyldi vera ég sem byði í hana. Ég var með hundrað krónur á mér svo hún mátti ekki verða dýr.

Svo byrjaði ég að bjóða í styttuna, tíu, tuttugu, þrjátíu, fjörutíu krónur og þannig koll af kolli. Þegar ég var kominn upp í sjötíu áttaði ég mig á því að við vorum bara tvö sem buðum í styttuna. Ég og konan.

2010-11-07

Nýr heimilismeðlimur


Nýjasti heimilismeðlimurinn var sóttur til Málmeyjar í morgun. Hann kostaði kúk og kanil og það þurfti að skrúfa undan honum lappirnar svo hann kæmist fyrir í bílnum.

Þegar var búið að bera á hann teakolíu og pólera hann aðeins varð hann næstum því eins og nýr. Nittsjö-plattinn fær að veita honum selskap.

Nú hefur geymslupláss heimilisins aukist um helming, en það er alveg hreint með ólíkindum hvað nútíma arkítektar eru sparsamir á skápaplássið.

2010-11-05

Myrorna


Við skruppum til Málmeyjar í dag og skoðuðum teak-skenk á markaði fyrir notaðar mubblur. Myrorna (≈ Góði hirðirinn x 31) eru rétt hjá svo við ákváðum að fara þangað líka. Þar veit fólkið aðeins meira um verðmæti hluta en fólkið í Góða hirðinum, svo öllu dýrmætu er komið fyrir í læstum skápum og verðið er eftir því, hátt. Maður finnur enga Erik Kold bauka á skít og kanil.

Inn á milli finnur maður samt gersemar eins og litlu kisuna á myndinni. Hún kostaði ekki nema 5 krónur. Svo keypti ég líka heklunálar sem eru svo fínar að það er hægt að hekla tvinna með þeim.

(Emmaus, sem er í sömu götu, bíður betri tíma, við nenntum ekki).