2010-08-26

Bollar

Niðri í bæ eru tveir nytjamarkaðir, Erikshjälpen og Fyndkällaren. Fúkkalyktin og draslið í Fyndkällaren eru svo yfirgnæfandi að maður fer þaðan með meiri hausverk en maður kom með. Hjá Erikshjälpen eru kerlingarnar svo hægar og heyrnarlausar að maður stendur í hálftíma í röð (einn) áður en maður fær afgreiðslu. Þær vita samt hvað þær geta fengið fyrir hlutina. Rörstrand er til dæmis dýrt. Samt tókst mér að fá þrjá svona bolla fyrir 18 krónur í dag. Ég ætla að drekka kaffi úr þeim þegar Marimekkobollinn minn er í uppþvottavélinni.


Fyrir þá sem eru illa haldnir af staðlablæti (eins og t.d. ég og u.þ.b. níu milljónir Svía), þá stendur VDN fyrir varudeklarationsnämnden, P = postulín og 555 = engin hætta á því að komi sprungur í glerunginn, þolir alla matarrétti, þolir 75 gráður í uppþvottavél. Það var byrjað að merkja postulín með þessu á sjöunda áratugnum.

2010-08-22

Turn


Öll dönsk ráðhús hafa turn. Nema turninum á ráðhúsinu í Árósum var víst klínt á eftirá. Arne Jakobsen var nefnilega illa við turna. Sagan hermir að hann hafi haft turninn sem ljótastan, bara til að hefna sín. Mér finnst hann fallegur svona upplýstur í myrkrinu.

Rússíbani

Grind þessi heldur uppi rússíbana í Tusenfryd fyrir utan Osló. Þetta er ein sú flóknasta smíð sem ég hef séð, en hún er ekki mjög traustvekjandi fyrir vikið. Ég fór aldrei í rússíbanann.

Múr

Þessi múr er hluti af virki í Varberg. Það er eitthvað við hann sem heillar mig, en ég get ekki útskýrt það. Kannski rótið og allar ólíku línurnar, eða hversu ófullkominn hann er með öllum þessum ólíku múrsteinum og tréverki.

Stillasar

Ég hef mjög lúmskan áhuga á því sem ég er hræddur við, þó sérstaklega á stillösum og köngulóm. Þessi mynd er tekin í Gamle Byen í Osló.