2011-01-31

Sveskja

Stig Lindberg er vafalaust einn af þekktustu hönnuðum Svía. Hann vann lengi í postulínsverksmiðju Gustavsberg, hannaði sjónvarpstæki, textíl og myndskreytti bækur, m.a. bækur Lennarts Hellsings. Ef konan fengi að ráða væru allir veggir hússins þaktir Lystigarðinum. En hún fær ekki alltaf að ráða.

Fyrir utan nokkrar undirskálar með mynstri eftir Lindberg eigum við mjólkurkönnu úr seríunni Prunus sem var framleidd á árunum 1962 – 1974. Við notum hana aldrei af því að það sullast meira niður með köntunum en í glasið þegar maður hellir úr henni. Hún er ágæt fyrir túlípana.

2011-01-09

Mykolo

Hér á heimilinu kaupum við ekki sænskt postulín, við fáum það gefins. Smáhlutirnir hverfa hver á fætur öðrum úr skafferíi tengdamóður minnar og ganga í endurnýjun lífdaganna hjá okkur.

Skálin, sem er 28 sm löng og 11 sm breið þar sem hún er breiðust, er merkt Mykolo og kemur úr postulínsverksmiðju Uppsala-Ekeby.Amagerhillan

Ég stóðst náttúrlega ekki mátið og keypti amagerhillurnar sem ég sá í antíkbúðinni á Clemenstorgi. Það er annar háttur á hér en í íslenskum skransölum, þar sem allt er selt á hæsta mögulega verði. Ég fékk hillurnar á spottprís, næstum því tvær fyrir eina. Í sömu búð keypti ég svo lítið hliðarborð á 100 krónur (það verður sett inn mynd af því seinna).

Núna er hillan, sú sem var ekki gefin í jólagjöf, komin upp á vegg og í hana refurinn góði og steinarnir sem mamma heklaði utan um.

ES: Óminnishegrinn er með mér nú sem fyrri daginn. Ég var auðvitað búinn að birta mynd af hliðarborðinu, en þá var það reyndar óolíuborið og ekki í fókus. Það er miklu fallegra í stofunni minni en í búðarkjallaranum sem ég fann það í.

2011-01-07

Baukar

Það sló mig að ég var ekki búinn að setja inn myndir af Erik Kold baukunum sem mér áskotnuðust í haust sem leið. Amma mín keypti þá áreiðanlega í útibúi Kaupfélags Norður-Þingeyinga í Ásbyrgi einhvern tíma á níunda áratugnum. Hún fór í 100-ára afmælið hans afa á himnum í vor og mamma kom með þá til mín og líka tvo dýrindis kökubauka sem amma hafði átt. Blómabaukurinn er uppáhalds!


Elgir

Tengdafaðir minn hefur stundað elgsveiðar alla sína hunds og kattar tíð. Frystikistan er full af ólseigu elgskjöti sem við tyggjum í öll mál þegar við erum hjá þeim í heimsókn. Elgurinn er mikilvægur hluti af lífinu, enginn fer út fyrir hússins dyr án þess að allir hrópi á eftir „Passaðu þig á elgnum!“

Þessir ægifögru Jie-plattar hanga upp á vegg hjá tengdaforeldrum mínum. Ég ætla einhvern tíma að læsa krumlunum í þá ...