2011-03-17

Þvagblöðrur og eldhúsinnréttingar

Æ, það er allur vindur úr manni ... Þessi vetur er orðinn nokkrum vikum of langur og maður er orðinn ansi langeygður eftir vorvindunum. En það þýðir víst lítið að kvarta.

Ég held ég sé búinn að birta myndir af öllum postulínshundunum mínum og það er lítið um loppisa á þessum tíma árs. Ætli maður verði ekki að vera taktískur í sumar og safna á sig einhverjum munum sem maður getur lekið út á netið með reglulegu millibili.

Meðan við bíðum getum við dáðst að þurrkuðu þvagblöðrunum sem hanga í loftinu á safninu í Kirkjubø á Streymoy í Færeyjum. Þetta var víst notað í gamla daga til að geyma vatn í. Ég tók ekki eftir eftirlitsmyndavélinni fyrr en ég hlóð myndinni inn á tölvuna. Mér finnst hún skemmtileg af því að hún minnir mann á andstæðurnar í þessu guðsvolaða neyslusamfélagi sem við búum í.


Svo fylgir líka mynd úr eldhúsi í pínulitlum sveitaskóla einhvers staðar í Kaafjord (lengst uppi í Troms í Norður-Noregi). Litirnir eru einstaklega ósamstæðir, en ljósbláu hurðirnar minna mig einhvernveginn á eldhúsið heima í Klöppum (ég man nú ekki eftir því að þær hafi nokkurn tíma verið ljósbláar, en systir mín sem skrifar stundum stuttorðar athugasemdir hér án þess að sanna sérstaklega mikið á sér deili, gæti örugglega frískað upp á minnið, þær voru alla vega ljósar alla tíð, þótt veggirnir hafi verið ansi skrautlegir).

5 kommentarer:

Elísabet sa...

Úr hvaða skepnum eru þessar blöðrur, t.d. þessi RISASTÓRA?

krummi sa...

Ætli þetta sé ekki úr nauti? Annars skilst mér að þetta sé ansi teygjanlegt svona áður en það er þurrkað.

Þórdís Gísladóttir sa...

Fínar blöðrur og skemmtileg skólamynd.

ella sa...

Hvort voru það nú aftur gallblöðrur eða þvagblöðrur sem voru notaðar sem loftvog? Þær voru þurrkaðar lokaðar, hengdar upp og þöndust síðan út eða drógust saman eftir því hver loftþrýstingurinn var.

krummi sa...

Já, þetta man ég að ég hef heyrt einhverntíma en ég get ómögulega munað hvort var, þvag- eða gallblaðra ... maður þyrfti að leggjast í rannsóknir núna.